Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Vörður gagnrýnir fækkun bílastæða og þrengingu Glerárgötu

$
0
0
Ungir Sjálfstæðismenn. Mynd tekin af vef Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Ungir Sjálfstæðismenn. Mynd tekin af vef Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri hefur sent frá sér ályktun þar sem þeir gagnrýna tillögu að miðbæjarskipulagi Akureyrar. Félagið telur þrengingu Glerárgötu stórlaska umferðarflæðið um miðbæinn og að íbúar bæjarins þurfi að eyða lengri tíma í ferðir innanbæjar.  Félagið krefst þess að bæjaryfirvöld sýni tíma bæjarbúa meiri virðingu.

Kalla þeir skipulagstillöguna „kreddufulla“ og vilja meina að verið sé að keyra hana í gegn fyrir bæjarstjórnarkosningarnar.

Einnig mótmælir Vörður þeim áformum að fækka bílastæðum í miðbæ Akureyrar. Vilja þeir meina að sú ráðstöfun geri það að verkum að aðgengi fólks að svæðinu snarversni og mun það koma niður á svæðinu í heild um ókomin ár.

Ungir sjálfstæðismenn vilja ekki að núverandi bæjarstjórn ljúki málinu heldur vilja þeir að sú bæjarstjórn sem tekur við að loknum kosningum taki efnislega afstöðu til málsins.

Hér er ályktun Varðar:

Þrenging Glerárgötu, nei takk!

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, harmar þau áform Akureyrarbæjar, sem nú eru í auglýsingu, að ætla að þrengja Glerárgötu. Ekki er nóg með að þrenging götunnar hefur verið sett aftur á dagskrá þrátt fyrir mikla óánægju bæjarbúa með fyrri áform heldur hefur þrengingin nú verið lengd að algerri óþörfu frá fyrri drögum. Hún á nú að ná allt frá gatnamótunum við Kaupvangsstræti að gatnamótunum við Grænugötu.

Glerárgata er glæsileg gata og hefur verið mikilvægur hluti af bæjarmyndinni á Akureyri um áratuga skeið. Á þeim tíma hefur núverandi lega götunnar tryggt gott aðgengi fólks að miðbænum og greiðar samgöngur innanbæjar. Með þessum kostnaðarsömu breytingum er verið að stórlaska umferðarflæðið í kringum miðbæinn og beina umferð inn á aðrar götur, sem miklu síður geta tekið við henni.

Vörður vekur jafnframt athygli á því að núverandi hugmyndir ganga enn lengra, lækka á hámarkshraða allt niður í 30 km/klst á þeim kafla, sem nú stendur til að mjókka. Með þeirri ráðstöfun auk fyrrnefndrar þrengingar er ljóst að verið er að neyða vegfarendur til að eyða meiri tíma í ferðir sínar innanbæjar. Vörður hvetur bæjaryfirvöld til að sýna tíma bæjarbúa meiri virðingu.

Í þeirri tillögu, sem nú liggur fyrir að skipulagi miðbæjarsvæðisins, er jafnframt gert ráð fyrir að bílastæðum stórfækki í miðbænum. Með því mun aðgengi fólks að svæðinu snarversna og mun það koma niður á svæðinu í heild um ókomin ár.

Það getur aldrei skapast sátt á meðal bæjarbúa um þá kreddufullu skipulagstillögu, sem nú stendur til að keyra í gegn fyrir bæjarstjórnarkosningar. Vörður harmar þau vinnubrögð og telur eðlilegt að nýr meirihluti að loknum kosningum taki efnislega afstöðu til málsins.

Samþykkt 17.3.2014

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718