Þann 6. mars 2014 áttu nokkrir jarðvinnu- garðyrkjuverktakar á Akureyri fund með bæjarstjóra, formanni framkvæmdaráðs og nokkrum yfirmönnum framkvæmdadeildar Akureyrarbæjar vegna óánægju með hvernig staðið er að úthlutun verkefna hjá framkvæmdadeildinni.
Verktakafyrirtækin sem fóru á fund bæjarstjóra og framkvæmdadeildar voru Garðtækni, Garðverk, KM malbikun, Túnþökusalan, G.Hjálmarsson, G.V.Gröfur og Arnar Friðriksson. Á fundinum kom fram að á árunum 2009-2011 hafi verktakar fyrst komið að máli við bæjarstjóra vegna starfshatta við úthlutun vinnu til verktaka sem þeir töldu einkennast af spillingu. Síðan hefur lítið þokast í þeim málum og tiltóku þeir allmörg verkefni sem gefin var Finn ehf, án útboðs:
1) Stígur úr Klettatúni.
2) Stígur úr Óseyri, upp að Olís Tryggvabraut.
3) Heimtaug og innkeyrsla fyrir Borgargil 1.
4) Öll smáverk, hellulagnavinna og umferðakantsteinar ásamt hellukaupum hafa verið í höndum þessa verktaka án útboðs.
5) Naustagata-Naustabraut, frágangur á stígum
6) Hólatún, lagfæring götu og lagna.
7) Gatnamót Dalsbraut við KA heimilið.
8) Hraðahindrun við Mýraveg.
9) Lagfæring á Aðalstræti.
10) Borgarbraut-Glerárgata, lagfæringar á götu.
11) Stígur við Ljómatún og Þrumutún.
12) Krossanesbraut – niðurfallslagnir.
13) Verktakinn hefur fengið leigð tæki í eigu Akrueyrarbæjar til vinnu fyrir þriðja aðila (veghefill við jöfnun á plani við Motul)
14) Bærinn samdi við verktakann um að taka endurgjaldslaust malarefni úr dammi í Glerá sem hann nýtti til eign nota. Þegar aðrir verktakar fóru að gera athugasemdir við þetta var málinu reddað með því að ákveða gjaldtökuna eftirá.
15) Verktakinn hefur aðstöðu fyrir möl á bæjarlóð á Gleráreyrum við áburðarskemmurnar.
16) Verktakinn hefur til afnota land í eigu Akureyrarbæjar þar sem hann er með vinnslu á gróðurmold
Verktakarnir telja þetta skekkja samkeppni á svæðinu. Þeir vilja meina að þarna sé um milljónatugi að ræða í ívilnunum til eins verktaka, Finns. ehf.
Akv.is náði tali af einum af verktökunum sem mættu á fund bæjarstjóra. „Bæjarstjóri var í grunninn alveg sammála okkur um að fjölga þyrfti útboðum og auka þannig gangsæi. Einnig væri hagur bæjarins af því að dreifa verkum á sem flesta. Eins og staðan er núna þarf að bjóða allt út sem fer yfir 16 milljónir. Bæjarstjóri var á því að fleiri verk sem væru undir þessum 16 milljónum þyrfti einnig að fara að bjóða út og gæta þannig jafnræðis. Það er alveg óþolandi að einn verktaki sé með forskota á hina hvað þetta varðar og sé í allt annarri aðstöðu en við hinir“ Ekki náðist í Finn Aðalbjörnsson eiganda Finns ehf. við gerð fréttarinnar.
Aths 15:15 Mistök voru gerð við vinnslu fréttarinnar þess efnis að Kristinn Svanbergsson var titlaður sem meðeigandi Finns ehf. Svo er ekki og beðist er velvirðingar á þeim mistökum.