Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Jólasýning á rússneskum teiknimyndum

$
0
0

1508467_10151886666242800_1190090637_nUm næstu helgi verða barnasýningar á rússneskum teiknimyndum í sýningarsal Ungmenna-Hússins á 4. hæð Rósenborgar. Myndirnar eru allar án tals og því er rússneskukunnátta ekki nauðsynleg til þess að njóta þeirra. Athugið að frítt verður inn, sýningar byrja kl. 16 bæði á laugardag og sunnudag og er sýningartími um 45 mínútur.

Áhorfendur fá að kynnast ævintýrum úlfsins Volks og hérans Zayats í jólaþættinum „Nýjársveislan“ frá árinu 1974. Hugmyndasmiðurinn, Vyacheslav Kotyonochkin, hóf framleiðslu þáttanna árið 1969 undir heitinu „Nu, pogodi!“, sem útfærist á íslensku sem „Bíddu bara!“. Þeir nutu mikilla vinsælda í gömlu Sovétríkjunum og voru einnig sýndir í öðrum löndum Austur-Evrópu. Söguþráðurinn er einfaldur og svipar til Tomma og Jenna – úlfurinn Volk reynir hvað eftir annað að ná héranum Zayats og beitir við það ýmsum brögðum, sem vanalega skila litlum árangri. Að auki verður sýnd stuttmyndin „Hnotubrjóturinn“ frá árinu 1973. Myndin er byggð á samnefndri sögu E.T.A. Hoffmann og ballet eftir þá M. Petipa og L. Ivanov með tónlist eftir P.I. Tchaikovsky.

Hnotubrjótur, sem hefur verið hengdur upp til skrauts á jólatré á hefðarheimili, lifnar við í skjóli nætur og segir eldabuskunni frá því hvernig Músakóngurinn breytti honum, áður mannlegum prins, í hnotubrjót. Stuttu síðar þurfa þau bæði að verjast árásum hins nýja konungs og sveita hans.

Skipulagning sýningarinnar er í höndum Alþjóðastofu og er viðburðurinn haldinn í samstarfi við Ungmenna-Húsið, kvikmyndaklúbbinn KvikYndi og Félag Pólverja á Akureyri. Myndirnar eru sýndar með góðfúslegu leyfi rússneska kvikmyndafyrirtækisins Soyuzmultfilm og eru þar að auki studdar af Sendiráði Rússneska sambandsríkisins í Lýðveldinu Íslandi.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718