„Ég fór út til að ögra sjálfum mér, fá innblástur og athuga hvar ég stend meðal þeirra bestu. Árangurinn hvetur mig enn frekar áfram. Uppsetningin mín á Macbeth er nú í skoðun fyrir leiklistarhátíðir víðs vegar um heiminn,“ segir Jón Gunnar, leikstjóri á Akureyri.
Jón Gunnar er aftur kominn til Akureyrar frá London þar sem hann setti upp Macbeth í samstarfi við Kevin Spacey en Spacey er listrænn stjórnandi The Old Vic leikhússins í London. Íslendingurinn fór sína eigin leið með verkið og breskir gagnrýnendur eru himinlifandi. Flestir gagnrýnenda fjölmiðlum úti gefa Jóni Gunnari, uppfærslu hans og leikstjórn fjórar stjörnur. Segir í flestum dómanna að Íslendingurinn hafi með áhugaverðum hætti blandað norrænum goðsögum inn í þetta fræga verk Shakespeares.
Uppfærslan reyni mjög á líkamlegan styrk og magnaða kóríógrafíu. Eldur ís og blóð, hellingur af blóði komi mikið við sögu. Sumir draga línu við nútímaverk eins og þekktar síðari tíma kvikmyndir. „The play emphasizes how much Macbeth and his men are ‘Natural Born Killers’ in close combat, similar to the brutal ‘Mandingo’ fighting depicted in Quentin Tarantino’s Django Unchained,“ segir krítíker Everything Theatre, 8. nóvember sl.
Um næstu verkefni segir Jón Gunnar að hann langi þrátt fyrir velgengnina og tækifærin ekki út aftur á næstunni. Gott sé að vera kominn afttur heim til Akureyrar. „Það er algjör draumur að fá að leikstýra einu draumaverkefni út í heimi á ári en búa og vinna á Akureyri. Mitt næsta verkefni verður að leikstýra Lísu og Lísu hjá Leikfélagi Akureyrar. Ég hlakka til að takast á við það skemmtilega og krefjandi verkefni,“ segir Jón Gunnar, í samtali við Akureyri vikublað, sáttur og sæll.
-BÞ