Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Myndlistaopnanir í Gilinu

$
0
0

Ketilhúsið

HjordisFrimann_minni

Hjördís Frímann opnar málverkasýningu í Ketilhúsinu kl. 15 á morgun, laugardag. Sýninguna nefnir Hjördís „Spor í áttina – áfangastaður ókunnur“, en leiðangrar hennar  um listheima hafa víða legið. Eftir viðkomu í ljósmyndun féll hún marflöt fyrir málverkinu fyrir tæpum 30 árum og hefur haldið sig við þann miðil allar götur síðan. Á námsárunum við Fagurlistaskólann í Boston málaði hún hömlulaust, lét allt flakka, og ekki dugði minna en risastórir flekar í sköpunina. Þótt vinnubrögðin séu nú önnur er áfangastaðurinn enn ókunnur. Formin eiga hug hennar og hjarta um þessar mundir og litagleðin vísar veginn. Farið er í allar áttir enda formgerðin af margvíslegum toga og blindgöturnar margar. Sjálf segist Hjördís breyta um stíl oft á dag!

„Við erum svo ljónheppinn að Hjördís er lögð af stað í enn eina óvissuferðina og hefur boðið okkur að slást í för með sér. Ég veit ekki hvar ég kem til með að enda, og ég veit ekki með ykkur, en ég ætla að þiggja boðið, taka spor í áttina þótt áfangastaður sé ókunnur – og mikið assgoti hlakka ég til reisunnar!“ segir í umfjöllun Ævars Arnar Jósepssonar í sýningarskrá.

Sýningin stendur til 16. júní og er opin alla daga nema mánudaga og þriðjudaga frá kl. 13 til 17. Frá og með 1. júní er opið alla daga nema mánudaga kl. 9-17. Aðgangur er ókeypis.

Deiglan

MariaOsk-760x1024

PING-PANG-PÚFF er heiti sýningar sem einnig opnar á morgun, laugardag, í Deiglunni. Um er að ræða verk eftir Maríu Ósk Jónsdóttur (f. 1987). Þetta er önnur einkasýning Maríu en hún útskrifaðist 2012 frá Designskolen Kolding í Danmörku. Hér sýnir hún mestmegnis fígúratíf verk en í náminu lagði María áherslu á málverk og teikningar. Nokkurs konar örsaga í léttari kantinum fylgir hverri mynd og saman skapa sagan og myndin eitt heildstætt verk.

Sýningin er opin til 16. júní, kl. 13-17 alla daga nema mánudaga og þriðjudaga. Sumaropnun er frá 1. júní til 31. ágúst kl. 9-17 alla daga nema mánudaga.

Salur Myndlistarfélagsins

IMG_9536

Stefán Þengilsson opnar á morgun, laugardag, kl. 14,  málverkasýningu í Sal Myndlistarfélagsins að Kaupvangsstræti 10, 2.hæð. Stefán sýnir það nýjasta hjá sér í málverkinu og býður alla hjartanlega velkomna.

Sýningin mun standa yfir næstu tvær helgar og er opnunartími  laugardaga og sunnudaga frá kl. 14-17. Sýningin verður einnig opin á miðvikudaginn 22.maí -föstudagsins 24.maí frá kl. 17-21.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718