Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Lottóslagurinn

$
0
0
Björn Þorláksson

Björn Þorláksson

Ein af þversögnum samfélagsins er hve opinber umræða snýst að miklu leyti um efnisleg gæði. Samt eru flestir sammála um að hin raunverulegu lífsverðmæti felist í andlegum gæðum, þeim sem ekki kosta peninga. Án andlegrar fullnægju, samsemdar og samhjálpar má efast um að raunverulegri hamingju verði náð. Við getum a.m.k. öll fallist á að án ástar og öryggis fær enginn notið veraldlegra auðæva sem skyldi.

Klassískt dæmi um oftrú á efnislegri hamingju er þegar fólk með veikan bakgrunn vinnur milljarða í erlendum happdrættum. Oftar en ekki bera „vinningshafarnir“ fátt annað en óhamingju úr býtum. Margir verða gjaldþrota á örfáum árum (eins þversagnarkennt og það nú hljómar). Oft fylgja hjónaskilnaðir, alkóhólismi eða annað heilsuleysi. Vinir og ættingjar fara að miða hegðun sína við lottómanninn í von um að fá sinn skerf af kökunni. Það brenglar vináttu og fjölskyldubönd, ekki ósvipað og þegar forríkur ættingi deyr óvænt. Oft kemur fyrir að sorg eftirlifenda finnur sér hvergi samastað vegna deilna um arfinn.

Blessunarlega eru nánast engar líkur á að maður vinni stórvinning í lottóinu. Samt geysast þúsundir Íslendinga inn í sjoppur og söluturna rétt fyrir drátt. Draumur um instant hamingju, falinn í bliki augna. Að kannski takist loks að útrýma skuldunum, fara í utanlandsferð með fjölskylduna, kaupa sér tímabundnar vinsældir, verða mammonískar ofurhetjur í einn dag.

Oft eyða þeir mestu í lottóið sem síst skyldu. Fórna jafnvel matapeningum eða bráðnauðsynlegum kaupum á fatnaði fyrir barnið vegna lottómiðans. Öllu fórnað fyrir veikan draum um risavinning sem líklegur er til að skapa ógæfu. Markaðsherferðum og auglýsingum um fjárplógsstarfsemi er líka sérstaklega beint gegn þeim sem minnstar hafa varnirnar og minnst fjárráðin. Þeir sem hafa sett siðleg spurningamerki við svoleiðis hafa verið sakaðir um forræðishyggju. Hún þykir frekar vont orð, enda tókst næstum að útrýma ríkisforsjá þegar Íslendingar tóku nýfrjálshyggjunni opnum örmum fyrir hrun. En kallað var á ríkismömmu þegar annað var hrunið.

Nýfrjálshyggjan predikar að maðurinn sé fátt annað en eigingjörn og siðlítil vél. Hann eigi að hafa frelsi til að gera allt. Peningar séu upphaf og endir allra athafna og ef við getum ekki aflað þeirra séum við aumingjar.

Nýfrjálshyggjan vill að við höfum frelsi til að fara til helvítis. Hún vill lága skatta, telur eðlilegt að forréttindastéttir kaupi sér betri menntun og meira heilbrigði en hinir tekjuminni. Mennskan segir okkur hins vegar að við höfum skyldum að gegna, hvert gagnvart öðru. Að bjargir okkar séu ólíkar í upphafi lífsgöngunnar, að þess vegna verðum við að deila gæðunum, auka áherslu á velferð, upplýsingu og menntun, huga að öllum borgurum samfélagsins með því að auka jöfnuð og siðvit. Huga að aukningu andlegra gæða fremur en að einblína á lottóhyggju tilviljana- og frumskógarlögmálsins.
En þetta er harður slagur og tvísýnn.

Björn Þorláksson


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718