Síðasta nótt verslunarmannahelgarinnar og hátíðarinnar Einnar með öllu fór rólega fram að sögn lögreglu og engin stórmál komu upp en einhver erill og pústrar urðu.
Góð stemmning var á Sparitónleikum á íþróttavellinum og létu gestir ekki kuldann á sig fá og mættu kappklæddir og nutu góðra atriða og tilkomumikillar flugeldasýningar.
Nú fara gestir að hugsa sér til heimferðar og vonandi gengur heimferð allra vel. Lögreglan á Akureyri verður á vaktinni því það er alltaf hætta á að fólk aki of snemma af stað eftir skemmtanir næturinnar. Enn er þónokkur vindur á Suðvesturlandi og hætta á snörpum vindhviðum við fjöll en kemur til með að lægja síðdegis.

Vættir og Eldpíurnar fluttu í sameiningu dansverk á Akureyrarvelli í gær þar sem eldurinn skipaði stóran sess. Mynd: Daníel Starrason