Opnun veitingastaðarins Serrano á Akureyri sem áætlað var að yrði þann 14. júní hefur tafist en nú er áætlað að staðurinn opni um miðjan júlí. „Það tók lengri tíma að fara í gegnum kerfið heldur en að við höfðum áætlað, við þurftum að afla allra teikninga af húsinu, götunni og húsunum í kring og það tók sinn tíma, en nú er þetta allt komið og allt er komið á fullt við að innrétta staðinn,“ segir Jón Ragnar Jónsson, rekstrarstjóri Serrano.
Serrano verður staðsett að Ráðhústorgi 7 þar sem áður var fataverslunin Didda Nóa og talsverðar breytingar þarf að gera á húsnæðinu. „Það er verið að smíða fyrir okkur innréttingar og svo þarf að sérsmíða fyrir okkur bæði heita og kalda borðið. Auk þess þarf að gera allar ráðstafanir varðandi loftræstingu og þess háttar þó það sé ekki eiginlegt eldhús á staðnum heldur bara upphitunareldhús,“ segir Jón Ragnar og bætir því við að ekki sé enn óhætt að segja nákvæmlega hvenær staðurinn opnar, „það getur alltaf eitthvað gerst sem tefur. En við viljum auðvitað opna sem fyrst því okkur hlakkar mikið til að koma norður“.