„Þetta var dálítið merkilegt en ég var búinn að kaupa mér ferð til Slóveníu en sendi líka til gamans póst þar sem ég svaraði nokkrum spurningum í þessum happdrættisleik og lét þess getið að ég gerði ráð fyrir að vinna aðra ferð. Svo vildi svo ótrúlega til að það rættist þannig að ég gat boðið bróður mínum sem á við veikindi að stríða og mágkonu minni miðann þannig að við förum öll fjögur út, við eiginkonan og þau. Mér þótti vænt um að geta gert þetta fyrir bróður minn,“ segir Oddur Helgi Halldórsson, frumkvöðull L-listans á Akureyri, oft kallaður valdamesti maður á Akureyri.
Nonni Travel stendur að beinu flugi til Slóveníu frá Akureyri í næstu viku og gátu áhugasamir um ferð til Slóveníu í samvinnu við sjónvarpsmiðilinn N4 tekið þátt í happdrættisleik og unnið ferð með því að svara nokkrum spurningum. Meðal þess sem Oddur Helgi þurfti að vita var að Markúsartorg er að finna í Feneyjum og hæð hæsta fjallsins í Slóveníu.
Oddur Helgi hefur áður flogið beint út frá Akureyri og segir ekki líku saman að jafna þægindalega miðað við ferðir í gegnum Keflavíkurflugvöll. Sérstaklega sé þægilegt við komuna aftur heim að vera kominn 10 mínútum eftir lendingu heim í stofu. „Ég myndi vilja sjá fleiri ferðir héðan en það hefur ekki gengið sem skyldi, Markaðsskrifstofa Norðurlands er með átak í gangi núna til að breyta því,“ segir Oddur Helgi, lukkulegur með ferðavinninginn.