Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Hugsað að morgni í maí

$
0
0
Arnar Már Arngrímsson

Arnar Már Arngrímsson

Ég er að hugsa um veturinn sem er að líða og af hverju, af hverju veturinn kýli mann alltaf kaldan. Hvað varð um gönguskíðaferðirnar, spilakvöldin, arineldinn og það allt? Vetur er bara slen og sjónvarp. Gengur betur næst.

Ég er að hugsa um sjónvarpið/skjái almennt. Það þarf ekki mikið grúsk í fræðunum til að komast að því að þessi tæki grafa undan samfélagslegri þátttöku. Við hættum að gera og kjósum fremur að sitja og þiggja. Ætlum við að halda áfram á þessari braut?

Það er bara eitt sem angrar mig í vinnunni; áráttukennt ástarsamband margra nemenda við síma og tölvur. Einhver kynni að segja, bara að banna þetta, en málið er ekki svo einfalt. Krakkar, hvernig væri að hvíla aðeins meira í núinu og vera ekki bara líkamlega til staðar?

Ég heilsaði upp á son minn á Hamarkotstúni í gær. Hann var grútskítugur með boga í hönd; Hungurleikar á Hamarkotstúni. Nú er kallinn sáttur.

Ég fór í Súper (sem sumir þekkja sem Kjörbúð KEA við Byggðaveg eða Samkaup) í gærkvöldi; nýr maður með nýjan lífstíl í pípunum. Keypti mér harðfisk. Allir hinir í röðinni voru að kaupa sykur í einhverri mynd. Ég skora hér með á háskólanema sem vantar verðugt rannsóknarefni að skoða sykurinnihald verslana. Mig grunar að það sé víða í kringum 40 prósent, álíka og sykurmagnið í kóki.

Það er bara eitt sem mig langar að breyta í skólakerfinu… Það er nánast vitfirring að senda börn út í sortann til að vera mætt í skólann klukkan átta. Svefnleysi, rangt mataræði, tölvuhangs og innivera; þetta gerir það að verkum að 6-8 tíma vinnudagur er sumum um megn. Ég nefni þetta stundum við nemendur í MA og þeir halda að ég vilji þar með hnika deginum til. Nei, ég vil stytta skóladaginn um þennan fyrsta tíma. Já, og stytta skólagönguna. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera; að byrja tveggja ára í leikskóla og ljúka stúdentsprófi um tvítugt.

Danssýning Point var mögnuð. Vissulega var ég stoltastur af dóttur minni en mikið gladdi það mig að sjá fullt af strákum úr MA dansa úr sér lungun. Ég skora hér með á þá að túra um grunnskólana með kynningu og draga litlu strákana út á gólfið.
Akureyri er að verða þvílíkt erlendis. Jethro Tull í Hofi og mér skilst að einn heitasti tónlistarmaður samtímans, John Grant, verði á Græna. Ætli Hvanndalsbræður hiti upp?

Mikið væri gaman að sjá hressilegt útspil frá bænum til að draga úr mengun og umferð. Þarf maður að verða ellidauður til að sjá einstefnu í Gilinu og verulegar hraðatakmarkanir? Og hvað er málið með framhaldsskólanema og bíla? Af hverju ekki að taka gjald af bílastæðum við MA og VMA og umbuna þeim sem koma gangandi eða á hjóli? Ég prófaði rafmagnshjól síðasta sumar. Það var snilldin ein. Nú þurfa skólar og fyrirtæki að bjóða upp á aðstöðu fyrir þannig hjól. Er það ekki sjálfsögð krafa? Þarf það að heita bíll svo fjárhirzlan opnist?

Gömul tugga? Er ekki tími til kominn að opna Ríki á Glerártorgi, í Kaupangi, Hrísalundi eða í Naustahverfi? Umferðaröngþveitið í kringum Hólabrautina er ólíðandi. Maður er kannski að fá sér möndlur í Tante Grethe og þarf að sæta lagi til að komast yfir götuna og á Amtið…

Arnar Már Arngrímsson
Höfundur er menntaskólakennari


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718