Frá árinu 2011 hefur Byggðastofnun veitt samfélagsviðurkenninguna Landstólpann, en heitið má rekja til kvæðisins Alþing hið nýja eftir Jónas Hallgrímsson þar sem segir m.a. að „bú er landstólpi, því skal hann virður vel“. Í ár var viðurkenningin veitt fyrirtækinu Norðursiglingu á Húsavík fyrir uppbyggingu hvalaskoðunar. Afhendingin fór fram á ársfundi Byggðastofnunar sem fór fram í menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði í gær, mánudaginn 28. apríl.
Norðursigling var fyrst fyrirtækja til að bjóða upp á reglulegar hvalaskoðunarferðir á Íslandi en rekur einnig veitingastaðinn Gamla Bauk og kaffihússið Skuld. Fyrirtækið byggir nú auk þess nýja þjónustumiðstöð sem staðsett verður ofan á aðalskrifstofu fyrirtækisins. Þar verður m.a. mingjagripaverslun og miðasala. Það hefur vakið sérstaka athygli að gamall eikarbátur verður notaður sem afgreiðsluborð.
Landstólpinn er hugsaður sem hvatning og bjartsýnisverðlaun og er veittur til einstaklinga, fyrirtækja, stofnuna eða sveitarfélaga. Henni fylgir jafnframt listmunur sem sérstaklega er hannaður á hverju ári af lista- eða handverksfólki.
Að loknum ársfundastörfum var haldin ráðstefna með yfirskriftinni „Hvernig má svæðisskipta Íslandi með tilliti til byggðaaðgerða“.
- EMI