Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Fjölbreytileiki mannlegrar flóru

$
0
0
Arndís Bergsdóttir

Arndís Bergsdóttir

Ég sat svo skemmtilegt málþing fyrir nokkru. Þingið var haldið til að fagna hundrað ára afmæli Jóhanns Kristins Péturssonar, Svarfdælings. Árið 1935, aðeins 22 ára gamall, ferðaðist hann til Kaupmannahafnar þar sem hann sýndi sig í fjölleikahúsum og var það ævistarf hans ef frá er talið um ellefu ára hlé í um og eftir síðari heimsstyrjöldina. Það sem fólk kom til að sjá var stærð hans. Jóhann gnæfði yfir jafnvel hávaxnasta fólk og var um tíma sá allra hávaxnasti. Fyrirbæri! Furðuverk! sagði fólk á innsoginu um leið og það gekk að næsta stalli þar sem það beindi áhorfi sínu að næsta „sýningargrip”.

Hvað veldur því að mannfólkið virðist svo áfjátt í að berja hið óvenjulega augum? Og hvað er hið óvenjulega? Ef til vill er gagnlegra að leiða hugann að því hvers vegna við lítum á suma sem undur og aðra ekki. Af hverju laðar hið ósamstæða í mannlegri tilveru okkur að? Við því er svosem ekkert einfalt svar. Væntanlega er það samspil þess hvernig við teljum veröldina í kring um okkar eiga að vera, vegan tæknilegra framfara, vegan fólksflutninga, þeirra atburða sem hafa átt sér stað í heiminum, mannlegra langana og hvaða leiðir við förum til að öðlast vitneskju. Hana reynum við nefnilega að nálgast eftir rökréttum leiðum. Vísindaleg rökvísi kennir okkur að flokka og bera saman; eitthvað er skilgreint sem „normal” og allt sem ekki fellur að þeim þrönga staðli er afbrigðilegt. Þannig finna þau hjá Íslenskri erfðagreiningu gen sem bera frávik og sjúkdóma. Og sama mynstur má finna í fjöldaframleiddum varningi þar sem framleiðslan miðast við skilgreiningar á „normal” líkamsvexti en ekki fjölbreytni mannlegrar flóru.

Þessu samspili hefur einnig verið beint á hina skuggalegu braut yfirráða. Þar sem það sem álitið er „normal” er á einhvern hátt ofar því sem álitið er skorta – og eitthvað er álitið afbrigðilegt vegna þess að það fellur ekki að þeim stöðlum sem við höfum búið til. Kannski finnst okkur það ekki í okkar höndum að skilgreina hvað er og hvað er ekki eðlilegt. En það er svo sannarlega í okkar höndum að viðhalda þeim hugmyndum – nú eða standa gegn þeim og fagna fjölbreytileika mannlegrar flóru.

Það sem vakti sérstaka ánægju mína var að málþingið um Jóhann var haldið að frumkvæði safns. Á síðari árum og áratugum hefur orðið þó nokkur þróun á starfi safna. Þau eru opið rými almennings og tilgangur þeirra er að vera vettvangur þar sem allir hópar samfélagsins eiga sér rödd. Söfn geta með þekkingu sinni og tækni bæði endurspeglað margbreytileika og samfélagslegar aðstæður, en þau geta að sama skapi viðhaldið fordómum og þröngsýni. Það er þeirra að gæta þess að allir hafi aðgang, ekki einungis sem gestir heldur einnig til þess að nýta þær bjargir sem eru til staðar á söfnum. Ekki síst þeir hópar sem ekki hafa verið sýnilegir á sýningum safna fram að þessu. Til þess er ætlast að sýningar séu unnar í samvinnu við þessa hópa og að safngestir hafi einnig tækifæri til að túlka þær á grundvelli eigin reynslu og stöðu. En sýningar sem þessar leiða ekki einungis í ljós marbreytileg sjónarmið.

Á byggðasafninu Hvoli á Dalvík fær Jóhann rödd. Þar má finna safn hluta sem minna á hann, það líf sem hann lifði og þær áskoranir sem hann stóð frammi fyrir. Sú áleitna spurning sækir þó að hvort við stöndum þarna á safninu og skoðum hann á sama hátt og hann var skoðaður á furðuverusýningum í fjölleikahúsum? Berum við hann saman við okkur sjálf og finnum yfirburði okkar – eða heppni eins og við köllum það í dag? Eða er framsetning safnsins á Jóhanni ef til vill að þjóna einum helsta tilgangi safna? Sjáum við ef til vill öðru fremur samfélagið og þann stað sem fötluðum er ætlaður á meðal okkar sjálfra? Munu margbreytilegar raddir í sýningarsölum safna ekki einungis leiða okkur á vit nýrrar vitneskju um aðra – heldur okkur sjálf? Er safn samfélagsleg sjálfshjálp?

Arndís Bergsdóttir


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718